LÖG FÉLAGS ELDRI BORGARA Í SKAGAFIRÐI
1. kafli
1. Heiti félagsins er FÉLAG ELDRI BORGARA Í SKAGAFIRÐI. Skammstafað FEBS. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki.
2. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmuna- og réttindamálum eldri borgara í Skagafirði þannig:
a. Vinna að efnahagslegu og félagslegu öryggi þeirra, með því að vera tengiliður og umsagnaraðili milli stjórnvalda og eldri borgara, um mál er þá varða, og gæta efnahagslegra og félagslegra réttinda þeirra.
b. Standa að og skipuleggja ýmiss konar starfsemi fyrir félaga, s.s. tómstundastarf, heilsueflingu, námskeið og kynnisferðir.
3. Félagið tekur ekki afstöðu til trúar- eða stjórnmálaskoðana.
2. kafli
- Rétt til að vera félagsmenn eiga þeir sem náð hafa 60 ára aldri og makar þeirra, þó yngri séu.
- Styrktaraðilar geta einstaklingar á öllum aldri orðið, svo og félög.
- Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
3. kafli
- Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda ár hvert, eigi síðar en fyrir lok maímánaðar og skal boða til hans með auglýsingum í blöðum og á samfélagsmiðlum, með a.m.k. viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á aðalfundi, nema um sé að ræða lagabreytingar. Til að lagabreytingar nái fram að ganga, þarf að geta um þær í fundarboði og þær að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða.
- Stjórn félagsins skipa fimm menn. Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára, tveir ár hvert. Í varastjórn skulu kosnir þrír menn til eins árs og skulu þeir kvaddir til í forföllum aðalmanna eða þegar stjórnin telur þess þörf. Ef varamaður tekur varanlega við af aðalmanni, skal hann sitja í aðalstjórn út kjörtímabil þess fyrr nefnda.
- Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn og einn til vara. Skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins og árita þá fyrir aðalfund ár hvert.
- Stjórn félagsins boðar til almennra funda í félaginu þegar þurfa þykir. Skulu þeir boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara, með auglýsingum í blöðum og á samfélagsmiðlum.
- Á dagskrá skulu þessi mál tekin fyrir:
- Skýrsla stjórnar.
- Reikningar félagsins.
- Ákvörðun um árgjald félaga
- Lagabreytingar, ef fram koma.
- Kosning formanns.
- Kosning tveggja manna í aðalstjórn og þriggja í varastjórn.
- Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara.
- Kosin þriggja manna ferðanefnd. Og í aðrar nefndir ef þurfa þykir.
- Önnur mál.
4. kafli
- Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda, ber ábyrgð á fjárreiðum þess og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.
Öll meiri háttar mál skal stjórnin leggja fyrir félagsfund. - Formaður boðar stjórnarfundi, þegar hann telur þess þörf eða ef tveir stjórnarmenn æskja þess. Stjórnarfundir skulu tryggilega boðaðir.
- Fundargerðir stjórnarfunda skulu skráðar í fundargerðabók félagsins.
5. kafli
Heimilt er að ákveða á almennum fundi að stofna sérstakar deildir innan félagsins, sem fást við tiltekin verkefni. Hverri deild skal kosin þriggja manna stjórn á aðalfundi deildarinnar ár hvert. Nánar skal kveða á um starfsemi deildar með samþykktum, sem aðalfundur deildar setur í samráði við stjórn félagsins.
6. kafli
Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið, skal hún sæta sömu meðferð og tillaga til lagabreytinga. Verði félaginu slitið, skulu eignir þess renna til almennra hagsmunamála aldraðra, eftir ákvörðun almenns félagsfundar.
Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins 14. mars 2022.
*Lög félagsins voru upphaflega samþykkt 29. september 1992.
*Breytingar gerðar 21. maí 1993, 17. apríl 1997, 12. apríl 1999, 15. apríl 2002 og 14. mars 2022.