Strandaferð Félags eldri borgara í Skagafirði 19.06.2024

Lögðum af stað frá Sauðárkróki kl. 9.30 í rigningu en þegar við fórum að nálgast Strandirnar létti til. Bragi Skúlason byrjaði leiðsögn í Hrútafirðinum Þar sem hann er fæddur og uppalinn, fræddi hann okkur um bæi og atvinnuhætti til forna bæði til sjós og lands, ásamt ýmsu öðru.

Við fórum í Sauðfjársetrið, fengum þar góðan viðgjörning bæði í mat og safni. Þá var haldið til Hólmavíkur, þar tók við leiðsögn Kristín Einarsdóttir frá Hveravík.  Fórum við Drangsneshringinn með viðkomu á Svanshóli. Þar er stórt gróðurhús með mörgum kirsuberjatrjám ásamt mörgu fleira. Jón Gissurarson fór með góðar vísur eftir sjálfan sig og Björn Björnsson. Svo var aðeins komið við í Galdri brugghúsi á Hólmavík. Þaðan var haldið til Búðardals, á þeirri leið tók Jón Sigurðsson til máls og sagði frá lífshlaupi foreldra og systkina Guðjóns Ingimundarsonar tengdaföður síns sem bjuggu á Svanshóli og frá hörmulegu snjóflóði sem féll á bæinn Goðdal 1948, þar sem systir Guðjóns fórst ásamt 2 börnum sínum og 3 öðrum heimilismönnum.

Í Vínlandssetri í Búðardal snæddum við kótelettur ásamt meðlæti og kaffi. Bragi átti eftir að fræða okkur mikið meira í ferðinni, greinilega vel lesinn og minnugur. Vorum komin heim um kl. 22.30.

Við vonum að allir hafi notið ferðarinnar, en við vorum 45 í ferðinni. Bílstjóri var Gísli Rúnar Jónsson hjá Suðurleiðum.

f.h. Ferðanefndar Kristín B. Sveinsdóttir