Aðalfundur FEBS var haldinn í Húsi frítímans þann 18. mars 2021.  Mættir voru 46 félagar.  Stefán A. Steingrímsson, starfandi formaður, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.  Skipaði hann Birgittu Pálsdóttur sem fundarstjóra.  Tók hún við stjórn og minnti fólk á sóttvarnir og lét blað ganga meðal fundargesta til að skrá nafn, kennitölu og símanúmer vegna smitrakningar.   Þá gaf hún Stefáni starfandi formanni orðið sem minntist látinna félaga og las upp nöfn þeirra.    Í minningu Helgu Sigurbjörnsdóttur, formanns,  fór hann nokkrum orðum um æviágrip hennar og þakkaði hennar störf í þágu félagsins.   Þá las Stefán upp skýrslu stjórnar, en vegna covid lá starfsemin að mestu niðri vegna samkomutakmarkana.  Á stjórnarfundi   17. september 2020 var ákveðið að starfið gæti farið að hefjast aftur, boccia og leikfimi fór af stað og var jólafundur ákveðinn 17. desember.  En 21. september voru covid smit aftur að aukast í samfélaginu og reglur hertar.  Svo ákveðið var að bíða. Ósk kom frá fjölskyldu Helgu Sigurbjörnsdóttur að blómagjöf vegna jarðarfarar hennar  yrði greidd í minningarsjóð Sigurlaugar frá Ási.  Gott samstarf var við nýjan yfirmann í Húsi frítímans, Sigríði Ingu Viggósdóttur og þakkað fyrir það.  Hefðbundið starf hófst svo aftur eftir áramót, þann 15. janúar.  Sú nýjung var að boðið var upp á tölvukennslu hjá starfsfólki Húss frítímans og mæltist það vel fyrir.  Helga Bjarnadóttir hélt utanum Löngumýrarstarfsemina og opið hús í Húsi frítímans var bætt við á föstudagsmorgnana.  Þá var haldið námskeið í tréútskurði og voru 10 þátttakendur.  Styrk frá Þróunarsjóði var lítið hægt að nota vegna covid.   Félagar eru nú 293.  Starfandi formaður þakkaði fundarmönnum og starfsfólki Húss frítímans fyrir gott samstarf.  Kristín Björg Helgadóttir, ritari, las fundargerð síðasta aðalfundar og var hún samþykkt.    Steinunn Hjartardóttir, gjaldkeri, gerði grein fyrir reikningum félagsins og bar þá undir fund og voru þeir samþykktir.  Fyrir hönd ferðanefndar sagði Magnús Óskarsson frá öllu sem ekki var gert og hugmyndum af t.d. leiksýningu í vor.  Símon Traustason sagði frá fyrirhugaðri ferð í Borgarfjörðinn snemma sumars og lagði fram könnunarlista um þátttöku.  Ásta Pálína Ragnarsdóttir sagði frá íþróttanefnd, 14-17 mæta að jafnaði í leikfimi og í Boccia mæta að jafnaði 18-20, en þar eru 25 skráðir félagar.  Pílukast er einu sinni í viku og  er lítil þátttaka þar.  Sönghópurinn hefur ekki haft neina starfsemi á þessum vetri og sagði formaðurinn, Snæbjörn Guðbjartsson, að farið yrði af stað af krafti í haust og alltaf vantaði nýja félaga. Ákveðið var að hækka kaffigjaldið úr kr. 300 í kr. 500 og gefur Sveitarfélagið áfram kaffiduftið.    Í önnur mál tók til máls Birgitta Pálsdóttir, ekki sem fundarstjóri heldur sem almennur fundarmaður og þakkar stjórninni fyrir þeirra störf á erfiðum tímum.  Hún leggur til að félagið gefi peninga í söfnun Safnaðarins fyrir nýjum líkbíl.  Hafði Símon Traustason einnig talað fyrir þessum lið í sinni tölu.  Var það samþykkt samhljóða.    Þá var kynnt ný stjórn sem samþykkt var samhljóða.  Formaður:  Stefán Arnar Steingrímsson, varaformaður: Ingunn Á.  Sigurðardóttir, gjaldkeri:  Steinunn Hjartardóttir, ritari: Ásta Pálína Ragnarsdóttir, meðstjórnandi: Guðmundur Gunnarsson, varamenn: Ásta Kristín Sigurbjörnsdóttir, Sigurður Björnsson og Magnús Óskarsson.    Þá var skipað í nefndir félagsins.  Íþróttanefnd:  Ásta Pálína Ragnarsdóttir, Guðmundur Gunnarsson og Gunnhildur Vilhjálmsdóttir.  Ferðanefnd:  Magnús Óskarsson, Þórey Helgadóttir og Símon Traustason.  Til vara Kristín B. Sveinsdóttir.  Skoðunarmenn reikninga:  Elín Sigurðardóttir og Gestur Þorsteinsson.  Til vara Engilráð M. Sigurðardóttir.  Fulltrúar í öldungaráði félags okkar eru:  Stefán Steingrímsson, Örn Þórarinsson og Svala Gísladóttir.  Til vara Ágústa Eiríksdóttir, Helena Svavarsdóttir og Gestur Þorsteinsson.  Sönghópurinn er með sína eigin stjórn.  Þá þakkaði fundarstjóri fyrir góðan fund og nýkjörinn formaður þakkaði fundargestum og vonar að félagið styrkist áfram.   Starfsfólki í Húsi frítímans þakkað fyrir einstaklega góða samvinnu og lipurð og eiga hrós skilið.  Fundi slitið.