,,LITLU  STRANDIR“ Í DALABYGGÐ

KYNNIS- OG SKEMMTIFERÐ Á VEGUM FÉLAGS ELDRI BORGARA Í SKAGAFIRÐI

Árið 2022 mánudaginn 19. september klukkan 9 að morgni lögðum við af stað frá N einum á Sauðárkróki. Áð var í Varmahlíð klukkan 9:30. 55 félagar höfðu skráð sig í ferðina, þrír hættu við, þannig að  52 voru með í för. Farkosturinn var að venju frá Suðurleiðum, en Haraldur Þór Leifsson ættaður úr Vesturdal hélt um stjórnvölinn – alveg fyrirtaks bílstjóri. Tafið var bæði á Blönduósi og í Staðarskála í stutta stund á báðum stöðum. Síðan var haldið yfir Laxárdalsheiði. Og nú átti leikinn leiðsögukona okkar Jóhanna Bjarney Einarsdóttir á Skúfstöðum í Hjaltadal; en sú er frá Rauðbarðaholti í Hvammssveit. Fræddi hún okkur um hvað eina, er fyrir augu bar í þessari ferð. Það er alveg ómetanlegt að hafa staðkunnugt leiðsögufólk í svona ferðum. Þegar niður í Búðardal kom, leiðsagði hún okkur að Leifsbúð, þar sem biðu okkar ýmiss konar súpur: Kjötsúpa, gullasúpa og kjúklingasúpa. Þeir sem vildu gátu skoðað safn á efri hæðinni um ferðir Leifs heppna til Vesturheims. Næst var haldið inn Hvammssveit og út Fellsströnd og um Skarðsströnd. Ekki sást nógu vel út á Breiðafjarðareyjar vegna þokulofts og rigningar. Farið var að Ólafsdal við Gilsfjörð, þar sem fyrsti bændaskóli landsins starfaði. Þætti heldur afskekkt þar nú á dögum.  Næst var ekið  um sveitirnar  Saurbæ og Svínadal og aftur að þorpinu Búðardal, þar sem beið okkar kaffi í Leifsbúð, hjá Pálma. Ætlunin var að fara Bröttubrekku og Holtavörðuheiði heim, en vegna tímaskorts var Laxárdalsheiðin farin aftur. Kvöldmatur beið okkar á B og S á Blönduósi. Ágætis matur þar, en óþolandi að hafa bara þjóna, sem hvorki tala né skilja stakt orð í íslensku. Það finnst mér ekki fólki bjóðandi.

Hagyrðingarnir í hópinum voru frekar spakir. En hér koma þrjár stökur, er fóru á flot, eftir að Jóhanna lét Tópaspela ganga um rútuna.

Þó að Hanna Tópasbokku bjóði
ef biti mætti ná úr deigu járni,
hagyrðingar þegja þunnu hljóði
þreytulegir Benedikt og Árni.
Höf:  Engilráð Sigurðardóttir

Eflaust fer nú ögn að kárna
okkar ferðagrín.
Þið breytið nú ekki  Benna og Árna
í biluð fyllisvín.
Höf.: Benni á Vatnsskarði

Glöð við flökkum góða ferð.
Gaman er í Dölum.
Þó að rigning þétt að gerð
og þoka ylli kvölum.
Höf.: Árni Bjarnason

Ég vona, að allir hafi verið nokkuð ánægðir og hressir eftir þessa ferð. Til Varmahlíðar var komið klukkan 21:30
Þórey Helgadóttir ritari (sign.)

 

                       ,,MANSTU GAMLA DAGA, MARGOFT GERÐIST SAGA“

                           GAMLIR DÆGURLAGASMELLIR Í HOFI Á AKUREYRI

Árið 2022 sunnudaginn annan október var lagt upp í menningarreisu til Akureyrar. Ekið var frá N einum á Sauðárkróki klukkan 14 og frá Varmahlíð klukkan 14:30. Haraldur Þór Leifsson  frá Suðurleiðum var rútustjóri; og farþegar urðu 44 talsins. Ferðinni var heitið á söngskemmtunina ,,Manstu gamla daga,“ sem var haldin í tilefni 40 ára afmælis Eldri borgarafélags Akureyrar. Sýningin hófst klukkan 16. Þetta var alveg frábær skemmtun og tónlistarfólkið fór á kostum. Gaman var líka að sjá allar gömlu myndirnar, sem Gísli Sigurgeirsson hafði safnað. Eftir þessa tveggja og hálfs klukkustundar löngu samkomu var haldið á veitingastaðinn Vitann, þar sem eldri borgarar úr Skagafirði fengu mjög góðan mat. Um tvo rétti var að velja úr kjúklinga – eða lamakjöt ásamt meðlæti. Á eftir aðalréttunum var boðið upp á kaffi. Ekið var heim klukkan 20:30 og komið í Varmahlíð klukkan 21:30. Allir voru sælir í sinni eftir þennan mannfagnað.

Þórey Helgadóttir, ritari (sign.)