Tuttugu og einn pantaði í ferðina, en þrír boðuðu forföll, þannig að útkoman varð átján manns. Lagt var af stað klukkan 9:30 þann þriðja júní og var Gísli Rúnar bílstjóri. Glampandi sól var norðan heiða en úr því þungskýjað og skúrir. Eftir smástopp í Staðarskála var stefnan tekin á Hraunsnef, þar sem beið okkar kjúklingasúpa. Eftir að hafa gert henni skil var ekið að Baulu, þar sem Bjarni Guðmundsson f.v. kennari á Hvanneyri kom um borð sem leiðsögumaður. Undir hans leiðsögn var farið um Stafholtstungur, fram Hvítársíðu að Hraunfossum og Barnafossi. Þaðan niður Hálsasveit og yfir í Reykholtsdal – aðeins komið við í Reykholti, en ekki farið út úr bíl þar. Fórum við svo niður Bæjarsveit og að Hvanneyri, þar sem við skoðuðum Ullarsetrið, Búvélasafnið og kirkjuna. Bjarni sagði okkur sögu hennar, en hún var byggð 1905 eftir að sú gamla fauk. Við skiluðum Bjarna til síns heima eftir frábæran dag. Svo ókum við sem leið liggur að Hótel Laxárbakka í Leirársveit. Fengum við þar herbergjum úthlutað og síðan var kvöldverður klukkan sjö. Fengum við fyrirtaks rjómalagaða aspassúpu og pönnusteikta löngu ásamt nógu af grænmeti með. Alveg fyrirtaks matur. Síðan var setið og spjallað um stund, en flestir gengu snemma til náða.
Föstudagurinn fjórði júní: Veður var mjög blítt – sólarlaust en hlýtt og smávegis rigning. Bjarni leiðsögumaður mættur fyrir allar aldir og lagt af stað á mínútunni. Nú vildi Bjarni byrja á að fara niður á Akranes, þar sem hann sagði okkur frá ýmsu, svo sem böllunum á hótelinu í den. Gengið var út að vitanum. Við sáum þarna kútter Sigurfara og sitthvað fleira. Eftir Akranesrúntinn var farið sem leið liggur fram hjá Hvalfjarðargöngunum og hótelinu og veitingastaðnum Laxárbakka og upp í Leirársveit og Svínadal, yfir Ferstikluháls og niður að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd. Þar skoðuðum við Stríðsminjasafnið hans Gauja litla. Mögnuð upplifun það! Því næst komum við að Hótel Glym, þar sem við snæddum afbragðs villisveppasúpu. Að því loknu héldum við inn Hvalfjörð og keyrðum inn í Brynjudal. Síðan var farið yfir í Kjós, þar sem við töfðum góða stund á Kaffi Kjós við Meðalfellsvatn, svo ókum við upp fyrir Miðfell og niður Miðdal, þaðan sem leið liggur að Hvalfjarðargöngum. Komum við að Laxárbakka klukkan fimm, þar sem við kvöddum okkar frábæra leiðsögumann. Klukkan sjö var svo kvöldmatur – dýrindis lambakjöt og meðlæti og frönsk súkkulaðikaka á eftir. Setið var um stund og sungið. Ásta Ragnarsdóttir fékk lánaðan gítar.
Á laugardagsmorguninn var sæmilegasta veður – skýjað en að mestu leyti þurrt. Við fórum frá Laxárbakka – þeim frábæra gististað klukkan tíu. Ég náði sambandi við Víðigerði í Víðidal og pantaði kjötsúpu handa okkur, er við kæmum þangað. Við keyrðum Melasveitarhringinn, tókum einn rúnt um Borgarnes, en ókum svo beint í Staðarskála, þar sem tekið var stutt pissustopp. Ásta Ragnarsdóttir tók nú að sér leiðsögn, þar sem við nálguðumst æskuslóðir hennar. Fórum við fram í Miðfjörð að vestan og austur yfir brú hjá Haugi, en aðeins norðan við Bjarg tókum við hægri beygju og ókum yfir í Fitjárdal og ókum norður hann. Komum klukkan rúmlega eitt í Víðigerði, þar sem kjötsúpa hafði breyst í aspassúpu, en hún var ágæt. Ingunn Sigurðardóttir tók að sér leiðsögn það sem eftir var af leiðinni. Komum á Krókinn klukkan rúmlega fimm. Þá var þessari bráðskemmtilegu ferð lokið.
Þórey Helgadóttir
Leave A Comment