Komið þið sæl og verið hjartanlega velkomin.

Ég segi haustfund  2018 settan.

Ritari fundar er Guðmundur Óli og fundarstjóri er Engilráð Margrét Sigurðardóttir.

Fel ég  fundarstjóra kynningu dagskrár og stjórn fundar.

Ágætu félagar! Gaman að sjá ykkur aftur. Margt hefur eflaust á daga ykkar drifið frá því við kvöddumst í vor, og vonandi eigið þið góðar og gleðilegar minningar frá sumrinu. Nokkrir félagar hafa kvatt og verður þeirra að venju minnst á aðalfundinum í vor.

En nú haustar að og starfsemin í Húsi frítímans er að hefjast að venju. Dagskrá vetrar fram að áramótum hefur verið auglýst í Sjónhorninu og á heimasíðunni. Starfsemin eins og þið þekkið er í nokkuð föstu formi, lítið breytt út af vana. Spilin, leikfimin, boccia, gönguhópurinn, skákin, handavinnan, leshópurinn allt á sínum stað. Sönghópurinn æfir í Ljósheimum og Helga Bjarnadóttir stjórnar áfram Löngumýrarstarfinu. Jóna Heiðdals verður áfram með handavinnuna og föndrið og með henni verður Helga Hjálmarsdóttir. Alda kvaddi okkur í vor og eru henni þökkuð vel unnin störf. Helgu bjóðum við velkomna. Þá vil ég minna ykkur á tilboð veitingahúsanna, endilega notið þá þjónustu af og til.

Frá því við kvöddumst í vor hefur heilmikið verið um að vera. Mikið var um að vera hjá íþróttanefnd – sömuleiðis ferðanefnd, fáum við að heyra frá þeim eins og fundarstjóri gat um í kynningu á dagskrá.

Formaður og varaformaður sátu aukalandsfund LEB á Seltjarnarnesi 24.apríl s.l.

Þar ávarpaði okkur nýskipaður félags-og jafnréttisráðherra Ásmundur Einar Daðason, vinsamleg orð látin falla og vilji sýndur til góðra verka. Mun tíminn leiða í ljós hvort svo verður.

Aðalfundarefni þessa aukalandsfundar voru lagabreytingar skv. tillögum laganefndar LEB. Gunnar Eydal fór fyrir þeirri nefndarvinnu og var búið að kynna tillögurnar fyrir aðildarfélögum LEB. Samþykkt var að fella niður formannafundi a.hv. ár, en landsfund skal halda árlega einn dag í senn. Landsfundarfulltrúm skal fækka, þó þannig að hvert félag eigi þar sína rödd. Hvert aðildarfélag á rétt á einum fulltrúa félags með einn til 150 félagsmenn, tveimur fulltrúum með 150-300 félagsmenn og síðan einum fulltrúa fyrir hverja 300 félagsmenn til viðbótar, eða brot úr þeirri tölu til setu á landsfundi. Nokkrir liðir voru samþjappaðir og styttir. Tillögurnar voru samþykktar á fundinum. Fulltrúar voru almennt ánægðir með afgreiðslu mála. Það fyndna við fundinn var – að honum var eiginlega aldrei slitið.

Bendi ég ykkur á heimasíðu LEB, en þar er að finna lög LEB með breytingum.

12.júlí s.l. heimsótti okkur Friðgeir Guðmundsson og kona hans Ester Óskarsdóttir, erindi hans var að færa félaginu að gjöf möppu með uppdráttum og teikningum af munstrum fyrir tréútskurð, Friðgeir hefur í mörg ár og áratugi kennt tréútskurð, og er afar vel kynntur af sínum störfum. Nokkrir af útskurðarnemunum frá í vor komu saman ásamt formanni til að taka við gjöf þessari.

Þess ber að geta að heimsóknin var boðuð með stuttum fyrirvara og vægast sagt erfitt að ná fólki saman, en óneitanlega hefði verið gaman að hafa aðstöðu til að taka myndarlega á móti gestunum.

Læt svo þess getið að útskurðarhópurinn leitar að húsnæði fyrir listsköpun sína.

Eflaust og vonandi hafið þið tekið eftir orðræðu og skrifum öllum  –  sem fjalla um réttindamál eldri borgara. Af nógu er að taka og hreint óskiljanlegt hvað ráðamenn skipta fljótt um skoðun varðandi málaflokk e.borgara, og eru tvísaga.

Í Fréttablaðið skrifar Björgvin Guðmundsson fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi oft greinagóða pistla um aðförina að eldri borgurum. Björgvin hefur það umfram flesta að hafa skilning, vit og rökfestu máli sínu til stuðnings. Ég hvet ykkur til að lesa greinarnar hans. Eins skrifar Helgi Seljan oft snjalla pistla um þennan málaflokk.

Það voru gleðilegar fréttir sem bárust frá Velferðarráðuneytinu um samning ráðuneytisins og sjúkratrygginga vegna tannlækninga aldraðra. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hækkar almennt úr 27% í 50%. Tóku þessi lög gildi 1.sept. Þessu ber að fagna

-Á liðnu vori rétt fyrir kosningar barst út að stofnað hefði verið öldungaráð innan sveitarfélagsins Skagafjörður. Það var langur aðdragandi að þeirri samþykkt og frekar klaufalegt ferli. Skv. lögum átti FEBS að eiga tvo fulltrúa og tvo til vara, og var óformlega tilkynnt að fundarseta öldunga á löglega boðaða fundi yrði án greiðslu. Okkar hugsun var ekki sú að ná okkur í einhverjar krónur, en þetta sýnir svolítið viðhorfið til öldunganna. Það skal tilkynnt hér og nú að enn hefur stjórn FEBS ekki fengið formlega tilkynningu um stofnun ráðsins eða ósk um tilnefningu fulltrúa í ráðið.

21.júní s.l. kom tilkynning um ný og breytt lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka gildi þann 1.okt.2018. Meðal nýmæla er að öldungaráð taka við því hlutverki sem þjónustuhópum aldraðra hefur fram til þessa verið falið að sinna. Er ráð fyrir því gert að öldungaráð starfi í hverju sveitarfélagi eða á grundvelli samvinnu milli sveitarfélaga.

Öldungaráðum er fyrst og fremst ætlað að vera formlegur vettvangur fyrir samráð við notendur um öldunarþjónustu. Samsvarandi skipan kemur til framkvæmda þann 1. október nk. varðandi notendaráð í þjónustu við fatlað fólk til samræmis við breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Þar sem öldungaráðum er hins vegar ætlað að taka við hlutverki þegar gildandi þjónustuhópa er rétt að hafa neðangreind atriði sérstaklega í huga við það val fulltrúa sem nú fer fram á vettvangi nýkjörinna sveitarstjórna:

  1. Við næstu endurskoðun á samþykktum sveitarfélags um stjórn og fundarsköp verði öldungaráð talin upp meðal annarra nefnda, ráða og stjórna sem sveitarstjórn kýs fulltrúa í (þessi upptalning er yfirleitt í staflið sem kemur á eftir fastanefndum sveitarstjórnar). Fulltrúum sveitarfélags í öldungaráði er með þessu veitt staða sem er hliðstæð fulltrúum þess á aðalfundum landshlutasamtaka og vettvangi annarra aðila af svipuðum toga. Í samþykktinni ætti að vísa til þess á kjörið fari fram á grundvelli 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga (með síðari breytingum) með hliðsjón af 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra (með síðari breytingum).
  2. Kjör á fulltrúum sveitarfélags í öldungaráði fari fram þegar samþykktir hafa verið endurskoðaðar. Sú leið er einnig möguleg, þar sem öldungaráði er ætlað að leysa af hólmi þjónustuhópa sem hingað til hafa starfað (að nafni til þó í flestum tilvikum), að fulltrúar sem sveitarstjórn velur til setu í þjónustuhópi á fyrsta eða öðrum fundi sínum eftir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar verði sjálfkrafa að fulltrúum sveitarfélagsins í öldungaráði. Þetta er þó háð því að sama skipan verði áfram á samstarfi um þjónustusvæði þar sem það á við.

Þess ber að gæta að öldungaráð hafa almennt ekki formlega stöðu innan nefndakerfis sveitarfélags. Af því leiðir að hvert öldungaráð fyrir sig setur sér starfsreglur um framkvæmd verkefna, þar á meðal gerð tillagna til sveitarstjórna um öldrunarþjónustu.

Samband íslenskra sveitarfélaga  vinnur nú að greinargerð um þau atriði sem sveitarfélög þurfa að huga að samhliða gildistöku nýrra og breyttra laga. Greinargerðin verður send sveitarfélögum auk þess sem svör við algengum spurningum verða aðgengileg á vef sambandsins.

Svo mörg voru þau orð: Ég endurtek, stjórn FEBS hefur ekki fengið formlega tilkynningu um stofnun öldungaráðs og því síður beiðni um tilnefningu fulltrúa.

Nóg um það. Nú erum við að byrja vetrarstarfið og ætlum að hafa það skemmtilegt. Kaffi og meðlæti verður með sama sniði og undanfarin ár – verð það sama. Hvaða starfsmaður verður hér í Húsi frítímans okkur til aðstoðar hef ég ekki hugmynd – en vonandi leysast þau mál sem annað.

Í dag hjálpumst við að  – með kaffið og spilin.