Þann 29. ágúst 2018 lögðum við af stað til Seyðisfjarðar þar sem ferjan Norræna var tekin til Færeyja.  Við vorum 46 þ.m.t bílstjórinn.  Það fór vel um okkur á ferjunni og fengum við lens alla leiðina til eyjanna, sem er 18 klukkustunda “stím”.  Við fórum víða um Færeyjarnar og nutum fegurðarinnar þar, skoðuðum sögustaði, heimsóttum Norræna húsið, litlu bæina, sóttum messu í Klakksvík og fórum á búðarrölt.    Hinn frábæri leiðsögumaður og bílstjóri var Sveinn Sigurbjarnarson hjá Tanna Travel.  Fararstjóri okkar var Helga Sigurbjörnsdóttir.  Við dvöldum á “Hótel Færeyjar”, fallegu hóteli í útjaðri Þórshafnar.  Þar fór vel um okkur í hvíld, mat og drykk.  Hópurinn var góður og þar sannaðist að maður er manns gaman.  Veðrið lék við okkur en við fengum þó að kynnast rigningu eyjanna og rokinu í kirkjuferðinni í Klakksvík!!!  Heim var haldið með Norrænu þann 3. september og þá “vögguðu okkur bárur” í vestan golu.  Ferðanefnd þakkar ferðafélögum ánægjulega daga og vonar að fólk hafi haft gleði og gaman af þessari ágætu ferð.

Fh. ferðanefndar:  Kristín Björg Helgadóttir