Aðalfundur F.E.B.S. 29.04.2019

Heil og sæl félagar góðir og verið hjartanlega velkomin á aðalfund félagsins fyrir starfsárið 2018- 2019. Við fundum óvenju seint þetta árið en það á sínar skýringar. Til fundarins hefur löglega verið boðað – fundarstjórn tekur að sér Guðmundur Gunnarsson og ritun fundar Guðmundur Óli Pálsson.

Góðir félagar! Í byrjun  minnumst við – með virðingu og þökk látinna félaga.

Viðstadda bið ég að rísa á fætur og votta virðingu:

Að venju hóf félagið vetrarstarfið formlega á haustfundinum. Lagt var upp með svipaða dagskrá og verið hefur undanfarin ár, þ.e.a.s. spilin, bingóið,skákina,leshringinn,leikfimina,gönguna, handavinnuna –  svo fátt eitt sé talið. Gunnar Rögnvaldsson og Helga Bjarnadóttir bjóða eldri borgurum til samverustunda á Löngumýri og spilahópur kemur saman á Hofsósi. Það fækkar enn í spilunum  hjá okkur en fjölgar í handavinnu-boccia- og lekfimihópnum. Guðrún Helga stjórnar leikfiminni.  Leiðbeinendur í handavinnuhópnum eru þær Jóna Heiðdals og Helga Hjálmarsdóttir, Þórdís Friðbjörnsdóttir leiðir leshópinn og eru þeim öllum færðar bestu þakkir.

Erfitt  hefur reynst  stjórn að brydda upp á nýjum afþreyingarmöguleikum, kemur þar margt til, en takmarkaður húsnæðisaðgangur stendur þróun starfsins verulega fyrir þrifum.  Rekstur félagsins stendur í járnum eins og gjaldkeri mun gera grein fyrir, þ.a. við getum ekki lagt í mikinn kostnað hvað varðar  kennslu- og leiðbeinendastörf.  Svo verðið þið félagar góðir að sýna áhuga og frumkvæði til breytinga og bóta.

Eðlilega koma nýjar áherslur og þarfir með nýju og yngra fólki – alltaf er jákvætt að breyta og bæta dagskrá að þörfum þeirra sem afþreyinguna sækja.

Að vissu leiti hefur þetta verið erfiður vetur. Spilin byrjuðu óformlega í byrjun september á s.l. hausti. Aðkoman í húsinu var bágborin, svo ekki sé meira sagt. Ekki var hægt að hella á könnu fyrr en eftir þvott og burstun tækja og tóla. Stjórn féllust hendur, umgengni um eignarhlut okkar í húsinu sem er eins og þið vitið innbú, stólar, borð,  eldhústæki- og tól, borðbúnaður  og fl.  er engum til sóma.

Þegar leið að formlegri starfsemi var enga aðstoð að fá hjá starfsfólki frítímahússins og var okkur sagt að þeim kæmi okkar starfsemi ekkert við. Kom þetta stjórn á óvart, því samstarf og samvinna hafði gengið vel til þessa. Fyrrverandi formanni Ingu Valdísi kom þessi framkoma mjög á óvart, því í hennar stjórnartíð var handsalað heiðursmannasamkomulag um þjónustuþátt sveitarfélagsins gagnvart eldri borgurum í frítímahúsinu, þar sem tekið var fram að á spiladögum skyldi starfsmaður hússins sjá um að reiða fram kaffi og pantað meðlæti. Því miður var ekki undirskrifaður – ritaður samningur, svo ekki var hægt að vitna í skrifuð orð. Þótti stjórn að sér vegið og óskaði eftir fundi með sveitarstjóra, sviðsstjóra og þeim öðrum sem um þessi mál fjalla innan sveitarfélagsins.

Fundur var síðan boðaður 5.nóv.s.l. með sveitarstjóra og yfirmönnum okkar málaflokks innan kerfisins. Stjórn mætti og Inga Valdís var svo vinsamleg að mæta og gerði hún grein fyrir upphaflegum samningum við félagið. Stjórn lagði fram nokkrar spurningar varðandi lögbundnar skyldur sveitarfélagsins og starfsmannamál. Vinsamlegar umræður – ákv. að útbúa samningsdrög til samþykktar um áframhaldandi starfsemi og þjónustu í frítímahúsinu. Allt er þetta fært til bókar í fundargerðarbók félagsins. 18.janúar bárust síðan drög að samningi sveitarfélagsins og F.E.B.S. til umsagnar og var stjórn beðin að yfirlíta og lagfæra. Stjórn var sammála um – að ekki væri hægt að svara þessari málaleitan bréflega og tilkynnti það formlega. Í stuttu máli fannst stjórn að félaginu vegið og visst upplýsingaleysi í gangi varðandi starfsemi félagsins. Fundur var síðan boðaður 4.mars – hversu lengi fundarboðið dróst var engum um að kenna nema formanni F.E.B.S.  sem var fjarverandi í febrúar og vildi sitja fundinn.  Samningsdrögin voru rædd og sett að mestu í bið. Starfsmannamálin í frítímahúsinu vegna þjónustu við eldri borgara veltust fyrir fundarmönnum og sýndist sitt hverjum. Mönnun Húss frítímans í dag miðast við þjónustu til annarra  en eldri borgara  – menntunarstig starfsfólksins miðast við annan og yngri aldursflokk.  Þótti stjórn heldur talað niður til sín. Niðurstaðan var sú – að starfsfólk er til taks á spiladögum og skal sjá um kaffi en alls ekki  bera fram veitingar.  Frá 7.mars hefur hópurinn fengið aðstoð með kaffið en félagar séð um meðlætið. A.ö.l. eru samningsdrögin í biðstöðu – en vonandi verður allt komið í ljúfa lausn fyrir næsta starfsár.  Formaður sem nú lætur af störfum hefur velt því fyrir sér – hvort ekki sé ástæða til – að framansögðu að huga að öðrum húsnæðislausnum. Ekki hefur stjórn enn fengið formlega tilkynningu um stofnun öldungaráðs innan sveitarfélagsins og því síður verið beðin að tilnefna fulltrúa. Eldri borgurum er ekki sýnd sú virðing og réttlæting sem þeir eiga skilið. Fyrir ári síðan í pistli formanns var tekið fram gott samstarf, velvilji og virðing í samskiptum við yfirmenn málaflokksins og starfsfólk frítímahúss, því miður er ekki hægt að endurtaka þau orð nú nema að hluta. Megas syngur ,,Lengi má manninn reyna“ og á það vel við nú.

Nú snúum við blaðinu við og tilkynnum eitthvað skemmtilegt. Útskurðarhópurinn hefur fengið aðstöðu í smíðastofu Árskóla og kemur þar saman á þriðjudögum kl.16-18. Steinunn hefur lyklavöldin og kallar liðið saman.

Á haustdögum heimsótti okkur Aðalbjörg Sigfúsdóttir og færði okkur gjöf frá ,,Lífið er núna“  dagsbirtuljós sem gott er að láta skína í skammdeginu.

Kristján formaður golfklúbbsins segir eldri borgara velkomna í golfherminn, endilega nýtið ykkur það.

Félagið keypti nýjar kúlur fyrir boccia-hópinn – og – endilega kastið kúlunum.

Kórfélagar syngja sem aldrei fyrr, þið fáið fréttir frá þeim á eftir.

Heimasíðan er í traustum höndum Ástu Ragnarsdóttur og þökkum við hennar störf. Verið endilega dugleg að senda myndir og fréttapistla til Ástu.

Formaður og gjaldkeri sátu landsfund L.E.B. 10.og 11.apríl s.l. Var fundurinn haldinn í Ársölum – húsakynnum F.E.B. í Reykjavík að Stangarhyl  4, björt og falleg húsakynni – þar  fer fram fjölbreytt starfsemi 6 daga vikunnar. Á miðvikudeginum var landsfundurinn sjálfur með formlegri dagskrá. Þórunn formaður setti fund, síðan ávarpaði forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir fundargesti – orð hennar snérust mest um  þriðja orkupakkann. Síðan ávarpaði fundargesti borgarfulltrúi  – Heiða Björk Hilmisdóttir og fræddi okkur um ágæti velferðarsviðs borgarinnar, eftir orðum hennar að dæma er ekki fjársvelti innan þess sviðs. Síðan voru hefðbundin aðalfundarstörf, fundarstjórar Magnús Norðdal og Dagbjört Höskuldsdóttir. Var Magnús sérlega röggsamur og góður fundarstjóri. Fundarritarar Hallgrímur Gíslason og Sesselja Eiríksdóttir. Stjórn F.E.B.S. hvetur ykkur að fara á heimasíðu LEB og kynna ykkur málefni fundarins. Þórunn Sveinbjörnsdóttir var endurkjörin formaður til 2ja ára.

Ný og breytt lög LEB voru kynnt þar sem m.a. segir í 4.gr. 4.2. Landsfundur kemur saman ár hvert, að vori til, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar LEB.

4.3. Stjórn LEB skal boða landsfund skriflega til aðildarfélaga og á heimasíðu sambandsins með minnst 6 vikna fyrirvara.

Stjórn hafði auglýst aðalfund félags okkar einmitt 11. apríl, þ.v. var fundardegi breytt.

Ályktanir frá kjaramálanefnd og heilbrigðis- og velferðarnefnd voru samþykktar.

Samþykkt var að hækka gjald aðildarfélaga til LEB úr 600 í kr.700./ per.félaga.

Um kvöldið var hátíðamatur á Nauthól, LEB fagnar 30 árum á þessu ári og af því tilefni borgaði sambandið helming matargjaldsins fyrir fulltrúa þingsins.

Á fimmtudeginum var síðan fræðsludagskrá.

Fyrstur talaði Arnar Guðmundur Ólafsson og kynnti fundarmönnum  velferðartækni og nýjustu áskoranir, en við erum mörgum árum á eftir hinum Norðurlöndunum  að innleiða velferðartækni. Skoða þarf sérstaklega stöðu þeirra sem búa við einangrun og einmanaleika og leita leiða til að rjúfa einangrun þessa fólks. M.a. felur velferðartækni í sér: Skolsalerni,ryksugurobota,tröppuaðstoð,lyftustóla,hreyfiþjálfunaræfingar á spjaldtölvum, lyfjaskammtara,skjáheimsóknir,raflása,stafrænar dagbækur og samskipti svo fátt eitt sé nefnt.

Næst flutti Guðrún Ágústsdóttir fyrrverandi formaður öldrunarráðs Reykjavíkur erindi um einmanaleikann – hvað er til ráða. Í upphafi máls síns vitnaði hún til Bretlands en þar hefur verið stofnað sérstakt ráðuneyti einmanaleikans og í Danmörku er rætt um stofnun ráðherraembættis eldri borgara – það er víðar en í okkar landi sem eldri borgararar eru settir út fyrir ramma hins almenna borgara. Einmanaleiki meðal eldra fólks er algengt fyrirbrigði – hvað því veldur er bæði skortur á tengslum og umönnun ástvina, og svo velja sumir að vera einir og eru hamingjusamir. Eftir því sem byggðirnar eru stærri og fjölmennari því meira ber á einangrun.  Guðrún vill breyta umræðunni og ræða hvernig hægt er að auka hamingjuna – hver og einn verður að finna leið til þess, en það getur verið erfitt þegar sífellt þarf að kljást við kerfið, en túlkun laga og réttlætis er túlkuð á margan og mismunandi hátt hjá ráðamönnum. Í lokin minntist hún á ógnina – sem sumir sjá í fjölgun eldri borgara og líkti því við náttúruvá;  ,,Öldruðum fjölgar- og jöklarnir bráðna“ Umhugsunarvert.

Þórunn formaður, flutti tölu um tölvur og Ipad virkni. Hvernig vinnum við með félögum okkar? Fengum við til eignar –  bækling þýddan úr dönsku þar sem eru einfaldar leiðbeiningar um notkun Ipad.

Ósk Sigurðardóttir frá TravAble talaði um aðgengismálin, CPS-hnappa,snjallsíma,spjaldtölvur,snjallúr og fl. ,,Be my eyes“ sýndarveruleika,skynörfun fyrir heilabilaða, samskiptarobota, heilsufarsmælingar og sitthvað fl. tengt tölvum.

Guðný H.Björnsdóttir kom frá Rauða krossinum og ræddi samstarf við eldri borgara –  til hvers og hvað svo. Heimsóknarvinir,ökuvinir,hundavinir,félagsvinir,vinir fanga eftir afplánun,vinir karla í skúrnum. Prjónahópar – hvað á að gera við vöruna?

Ofgnótt af vörum sem ekki er not fyrir nálægt okkur?

Formaður sleit síðan fundi. Ég hvet ykkur til að leita ykkur fróðleiks á heimasíðu sambandsins.

Ferðanefnd félags eldri borgara í Reykjavík undir stjórn Gísla Jafetssonar, skipuleggur styttri og lengri ferðir innanlands- og utan. Allir þeir sem eru félagsbundnir í einhverju aðildarfélagi innan LEB, eru velkomnir í þessar ferðir. – Tók með auglýsingu um ferðir innanlands í sumar. Ferðirnar til Köben á aðventunni hafa alveg slegið í gegn og við erum velkomin með.

LEB blaðið á að vera komið til ykkar allra – látið stjórn vita ef svo er ekki.

Afsláttarbókin 2019 er í dreifingu, þið eigið að vera búin að fá bókina, ef ekki hafið samband við stjórn.

Ágætu félagar – nú hefur verið stiklað á stóru hvað starfsemi félagsins varðar á s.l. ári. Nóg hefur verið að gera en allt tekst með góðum vilja. Einmanaleikinn er til staðar, ég hvet ykkur til – að halda sem lengst í þá afþreyingar- og tómstundaleiki sem þið hafið vanið ykkur á, stundið það sem lengst. Komið hér í Hús frítímans og sláið á létta strengi. Eins og formaður hefur oft minnst á þá erum við ótrúlega heppin í þessu byggðarlagi hversu mörg rými við eigum fyrir eldri veika borgara. Biðlistar eru ekki langir, hvíldarinnlagnir auðveldar og dagvistun fjölmenn. Ráð við einmanaleikanum verður hver og einn að finna, en margar hjálpandi hendur eru útréttar, og margir eru þeir sem líta inn til vina sem þarfnast umhyggju og samkenndar – og eru ekkert að ræða það við Pétur og Pál. Höldum því áfram.

Ágætu félagar – nú er líklega nóg komið. Nú stíg ég úr formannsstól, eftir fjögur ár, sem verið hafa afar ánægjuleg og lærdómsrík. Skoðun mín er sú að það sé engum hollt að sitja of lengi, og þar sem við höfum ekki ótakmarkaðan tíma, finnst mér eðlilegt að hleypa nýju fólki að.  Formaður hefur haft með sér úrvalsfólk í stjórn og nefndum og þakka ber þeim af heilum hug. Að telja upp nöfn þeirra allra væri allt of löng tala, en hafið heila þökk öll sem eitt. Þó geri ég undantekningu og nefni tvo – Inga Valdís forveri minn í stöðu formanns, það var ekki erfitt að taka við stjórnartaumum úr hennar hendi, allt þar á hreinu og endalaust hægt að leita til hennar. Hjartans þakkir Inga Valdís. Svo er það föðurlegur vinur Árni á Uppsölum, sem með endalausri hvatningu, réttlæti og kímni hvatti mig og styrkti í upphafi starfsins þegar á móti blés. Hjartans þakkir Árni.

Ykkur félagsmönnum öllum þakka ég góð kynni, samveru og skemmtun – höldum áfram okkar góða starfi hér í Húsinu og á öðrum vígstöðvun.

Endurtek þakklæti til allra þeirra sem í stjórn með formanni hafa setið og einnig nefndarmanna-og kvenna. Hafið heila þökk.

Býð nýja stjórn velkomna til starfa og óska þeim velfarnaðar.

Birgitta Pálsdóttir, fráfarandi formaður F.E.B.S.

 

Tillögur til stjórnarkjörs á aðalfundi F.E.B.S. 29.apríl 2019:

Formaður:

Helga Sigurbjörnsdóttir, Hólmagrund 13.

Varaformaður:

Stefán Steingrímsson, Hásæti 12a.

Ritari:

Kristín Helgadóttir, Suðurgötu 9.

Meðstjórnandi:

Guðmundur Gunnarsson, Eyrartúni 10.

Varamenn í stjórn:

Ásta Kristín Sigurbjörnsdóttir, Flugumýri.
Kristín Sveinsdóttir, Eskihlíð 1.
Magnús Óskarsson, Sauðármýri 3.

Skoðunarmenn reikninga:

Elín Sigurðardóttir, Sauðármýri 3.
Stefán Gestsson, Sauðármýri 3.
Varamaður: Engilráð Margrét Sigurðardóttir, Víðihlíð 35.

Íþróttanefnd:

Herdís Þórðardóttir, Laugatúni 26.
Guðmundur Gunnarsson, Eyrartúni 10.
Gunnhildur Vilhjálmsdóttir, Forsæti ?

Ferðanefnd:

Magnús Óskarsson, Sauðármýri 3.
Þórey Helgadóttir, Tunguhálsi.
Símon Traustason, Ketu
Varamaður: Kristín Sveinsdóttir Eskihlíð 1.

Þessar tillögur stjórnar voru samþykktar á aðalfundinum.

Tillaga gjaldkera Steinunnar Hjartardóttur um hækkun félagsgjalda var einnig  samþykkt.
Félagsgjald verður því kr. 3.000,- fyrir næsta starfsár, gjald greiðist jan/febr. 2020.