FERÐ UM FRAM-EYJAFJÖRÐ

Ferðanefnd Félags eldri borgara í Skagafirði efndi til kynnisferðar um framsveitir Eyjafjarðar miðvikudaginn 12. júní síðast liðinn. Lagt var af stað frá N einum  á Sauðárkróki klukkan níu árdegis. Gísli Rúnar Jónsson sat undir stýri og Þórey Helgadóttir Tunguhálsi II stjórnaði ferðinni og kynnti það, sem fyrir augu bar af mikilli röggsemi í hljóðnemann. Farþegar tíndust inn í rútuna á Sauðárkróki, í Lyngholti, Stekkholti, Varmahlíð og á Uppsölum. Alls urðu 39 manns með í för.

Eftir að hópurinn kom til Eyjafjarðar, var fyrst áð á Glerártorgi við Akureyri, þar sem fólki gafst kostur á að rétta ögn úr sér og létta á sér. Síðan ók rútan með mannskapinn að bænum Garði í Staðarbyggð austan Eyjafjarðarár, en veitingastaðurinn Kaffi Kú er í fjósinu á þeim bæ. Gestgjafinn Einar Aðalsteinsson ávarpaði hópinn. Hann lýsti því, hvernig er að vera kýr í stóru nýtísku hátækni lausagöngufjósi með mjaltaþjóni. Mér virtist Einar hafa lög að mæla; kýrnar í Garði voru feitar hreinar og rólegar, svo að þeim hlýtur að líða vel.

Eftir skelegga ræðu gestgjafans um kúabúskap og horfur í honum bauðst langsoltnum ferðalöngum loks að bragða á nautakjötssúpu með grænmeti í. Með henni var borið heimabakað brauð og heimastrokkað smér, ef mér skjátlast ekki. Einnig vöknuðu hjá mér grunsemdir um, að mjólkin sem ég drakk hafi verið óskilin beint úr kælinum án viðkomu í samlagi. Hún var í það minnsta afar þykk og góð eins og allur rjómi væri ekki úr henni.

Þegar allir höfðu fengið nægju sína á Kaffi Kú, ókum við fram að Möðruvöllum og þaðan vestur yfir Eyjafjarðará og áfram inn dalinn vestan verðan fram hjá Leynishólum. Þar beygðum við austur yfir ána gegnt bænum Vatnsenda og svo út að austan undir Hólafjalli, sem er langt og mikilúðlegt, og aftur vestur yfir hana  á móts við Sandhóla.  Þórey upplýsti, að þessi leið kallaðist Litli hringurinn.

Við héldum nú út Eyjafjarðarsveit vestan ár, að bænum Holtsseli, þar sem við fengum okkur heimagerðan ís, mjög bragðgóðan. Ísbúð og veitingastaður eru í risinu á fjóshlöðunni. Við sátum ofan við fjósið á bekkjum í skjóli trjánna og sleiktum ísinn í blíðunni. Þarna voru líka endur og hænsn á vappi, en gaman var að fylgjast með uppátækjum fuglanna. Þetta var sannkallaður Edensreitur.

Næsti áfangastaður var höfuðbólið og stórbýlið Grund í Eyjafirði. Við skoðuðum Grundarkirkju, sem er bæði mikið guðshús og fagurt, jafnt utan sem innan. Sveinbjörg Helgadóttir systir Þóreyjar sagði okkur frá kirkjunni.

Lokaáfangi ferðarinnar var Kristnes – áður berklahæli en núna endurhæfingarmiðstöð fyrir fólk, sem er að ná sér eftir veikindi. María Pálsdóttir fréttamaður á N fjórum vinnur þar að því að breyta fyrrum  starfsmannahúsi í veitingastað og safn um baráttuna gegn berklum á Íslandi. María flutti tilþrifamikið ávarp, enda leikkona að mennt, yfir okkur gamlingjunum – nokkurs konar ágrip af sögu berkla á Íslandi og um fyrirætlanir sínar á staðnum. Síðan drukkum við kaffi og borðuðum köku með þeyttum rjóma. Áhugavert verður að koma aftur að Kristnesi, þegar María hefur hrundið áfornum sínum í framkvæmd, og skoða útfærslur hennar á safninu.

Formlegri dagskrá ferðarinnar um innsveitir Eyjafjarðar lauk með heimsókninni að Kristnesi. Þegar við ókum fram hjá brúnni austur yfir mynni Eyjafjarðarár var hringnum lokað. Þá höfðum við bæði ekið stóran hring og lítinn hring í fram-firðinum í einmuna blíðu. Að svo búnu héldum við heim í Skagafjörð og Gísli Rúnar skilaði farþegum á þá staði, þar sem þeir höfðu komið inn í rútuna um morguninn.

Ég skemmti mér konunglega í ferðinni, og ég vona að förunautar mínir hafi gert slíkt hið sama. Ég þakka hinum í ferðanefndinni þeim Símoni Traustasyni í Ketu og Þóreyju Helgadóttur á Tunguhálsi II og Kristínu Sveinsdóttur gott samstarf og Gísla Rúnari öruggan akstur.

19.06. 2019
Magnús Óskarsson
frá Sölvanesi