Ferðanefnd Félags eldri borgara í Skagafirði stóð fyrir óvissuferð um Húnaþing fimmtudaginn 22. ágúst. Lagt var af stað frá N einum á Sauðárkróki klukkan níu að morgni dags og ekið að Hótel Varmahlíð í fyrsta áfanga, en Gísli Rúnar Jónsson var bílstjóri í ferðinni. Farþegar tíndust inn í rútuna á allri þessari leið.

Síðan keyrðum við um um Stóra-Vatnsskarð Víðivörðuás Ævarsskarð og Langadal út á Blönduós. Reyndi undirritaður með hjálp hátalarans að tína einstöku fróðleiksmola í förunautana á þessari leið. Fyrstu áningastaðir ferðarinnar voru Heimilisiðnaðarsafnið og Kvennaskólinn á Blönduósi. Elín Sigurðardóttir á Torfalæk  veitti okkur leiðsögn um Heimilisiðnaðarsafnið og Jóhanna Pálmadóttir frá Akri sýndi og sagði okkur frá Vatnsdælureflinum, sem  er hörstrangi einn mikill  varðveittur í Kvennaskólanum. Í hann eru saumaðar listilega útfærðar myndir, er segja sögu Vatnsdælu. Hafa margir komið að því verki. Talsvert vantar þó á að saumaskapnum sé lokið, en stöðugt er unnið að honum.

Við hefðum getað dvalið miklu lengur bæði á safninu og í skólanum, sökum þess að margt var að sjá og skoða og leiðsögnin frábær. En nú birtist Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum flestum að óvöru eins og vera ber í óvissuferð. Hann varð síðan leiðsögumaður okkar um nokkra valda staði í Húnavatnsþingi.

Fyrst var ekið frá Blönduósi um Útása eftir Þjóðvegi eitt að Þrístöpum í Þingi. Þægilegur malbikaður stígur er frá þjóðveginum að stöpunum, þar sem síðustu aftökurnar á Íslandi fóru fram árið 1829. Stillti leiðsögumaður okkar sér upp nálægt þeim stað, þar sem öxin féll á sínum tíma og raðaði okkur ferðalöngunum í kringum sig, meðan hann lýsti þessum átakanlega atburði. Sama gerði Björn Blöndal sýslumaður í Hvammi í Vatnsdal 190 árum fyrr, er hann boðaði ákveðin hóp búandfólks í Húnaþingi að vera viðstaddan aftökurnar.

,,Komdu nær Jóhann, svo að þú sjáir betur,“ á sýslumaður að hafa sagt.

En Jóhann þessi iðulega kenndur við Holtastaði í Langadal var um sína ævi riðinn við ýmis glæpamál í Húnaþingi. (Sjá nánar: Saga Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu e. Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi, Sæmundur 2017; Náðarstund e. Hannah Kent, JPV útgáfan 2014).

Frá Þrístöpum keyrðum við austan Víðidalsár að ferðaþjónustubænum Dæli í Víðidal, þar sem við borðuðum hádegismat, súpu og brauð, og drukkum kaffi á eftir. Kærkomið var að að rétta úr sér og spranga um úti í skjóli útveggjar veitingasalarins og limgerðis umhverfis lítinn skeiðvöll. Frá Dæli var haldið að Kolugljúfrum framar í dalnum og fossarnir mikilfenglegu í þeim barðir augum og margar myndir teknar. Er öll aðstaða þar til fyrirmyndar með útsýnispöllum og stígum.

Farin var stysta leið frá Kolugljúfrum inn á Þjóðveg eitt og ekið vestan Víðidalsár fram hjá Víðihlíð og áfram að Þingeyrum. Þar var áð allnokkra stund og litið inn í steinkirkjuna gömlu, sem Ásgeir Einarsson frá Kollafjarðarnesi stórbóndi og alþingismaður lét reisa um sína daga. Ung stúlka úr sveitinni leiðsagði okkur um kirkjuna, sem er hreint listaverk jafnt utan sem innan. Margir gengu og um kirkjugarðinn, kunnu nokkur deili  á þeim, sem hvíldi undir leiðunum, og höfðu jafnvel þekkt suma í lifanda lífi.

Á Þingeyrum er einnig þjónustumiðstöð í nýjum stíl, en hún kallast samt á við steinkirkjuna  gömlu  á einkar smekklegan og viðfeldinn hátt. Í henni má finna mikinn fróðleik um Þingeyrar sem klausturstað og valdsmannssetur og jafnframt eru þar snyrtingar, er allra síst skyldi vanmeta á stöðum sem þessum.

Þingeyrar eru ekki einasta mikil og góð bújörð; þær eru jafnframt ríkar af hlunnindum. Munar þar mestu um laxinn. Segir sagan, að hundarnir á bænum hafi hlaupið ýlfrandi út fyrir túngarð, ef þeir fundu lykt af soðnum laxi. Raunar hefur saga þessi verið heimfærð upp á ýmsar aðrar laxveiðijarðir eins og gengur.

Eftir að hafa notið víðsýnis á Þingeyrum um hríð, var næsti áfangi  Þórdísarlundur í Vatnsdal og gerður þar nokkur stans fyrir spjall og hreyfingu. Að svo búnu var ekið fram Vatnsdal að vestan og út dalinn að austanverðu eins og hefðin býður.

Næsti og jafnframt síðasti áfangi fararinnar var Ömmu-Kaffi á Blönduósi. Við gæddum okkur þar vöfflum með þeyttum rjóma og aldinmauki. Starfsfólkið þar hefði mátt vera ögn betur undir komu okkar búið en raun bar vitni, enda var afgreiðslan frekar sein, en starfsfólkið var samt allt að vilja gert, eftir að á hólminn var komið.

Við kvöddum Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum, leiðsögumanninn okkar, þarna á hlaðinu við Ömmu-Kaffi. Hann var að flýta sér; átti brýn erindi til Reykjavíkur næsta dag. Þessi för hefði varla orðið nema svipur hjá sjón, ef hans hefði ekki notið við. Hann fræddi okkur um svo ótal margt úr sveitum þessum og tíndi í okkur mýmörg gullkorn.

Ferðin heim lá um Langadal, Ævarsskarð, Víðivörðuás, Stóra-Vatnsskarð Varmahlíð og Sauðárkrók, þaðan sem við komum um morguninn. Frá Varmahlíð og út á Krók tíndust farþegarnir úr rútunni.

Við vorum 43 farþegar í rútunni

Sauðárkróki 17.10. 2019

Magnús Óskarsson