Upphaflega átti aðalfundur félagsins  fyrir starfsárið 2019 – 2020 að vera 19. mars 2020, en vegna Covit var allri starfsemi hætt um mánaðarmótin febrúar – mars.  Var því talið óhætt að boða til aðalfundar 10. september með því að öllum sóttvörnum yrði gætt.
Formaðurinn Helga Sigurbjörnsdóttir var forfölluð vegna veikinda og einnig gátu hvorki gjaldkerinn Steinunn Hjartardóttir og ritarinn Kristín B. Helgadóttir heldur verið viðstaddar og voru varamenn í þeirra stað.  Varaformaðurinn Stefán Steingrímsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna, en mættir voru 39 félagar.  Skipaði hann Engilráð Sigurðardóttur sem fundarstjóra.
Tók hún við stjórn og skipaði Kristínu B. Sveinsdóttur  sem fundarritara í fjarveru Kristínar B. Helgadóttur.   Að því búnu bað hún viðstadda að minnast látinna félaga með virðingu og þökk og las Stefán upp nöfn þeirra. Þá fór Stefán  með skýrslu stjórnar og fór yfir starfsemi ársins.  Þá las Kristín B. Sveinsdóttir fundargerð síðasta aðalfundar í fjarveru Kristínar B. Helgadóttur, ritara og sagði hún jafnframt frá ferð þeirra Kristínar B.  Helgadóttur á landsfund Landssambands eldri borgara sem haldinn var í  Reykjavík 30. júní  2020.  Í fjarveru gjaldkerans Steinunnar Hjartardóttur gerði Ásta Pálína Ragnarsdóttir grein fyrir reikningum ársins 2019.  Sagði hún félaga vera rúmlega 300.  Á síðasta aðalfundi var félagsgjaldið  hækkað úr 2.000,- í 3.000,- og komu sú hækkun ekki inn fyrr en á árinu 2020, eins framlag frá Sveitarfélaginu fyrir árið 2019 sem kom ekki inn fyrr en eftir áramót og var þar af leiðandi töluvert tap á rekstri félagsins sem vonandi réttist af á árinu 2020.  Nýtt er að þeir félagar sem voru í föndrinu voru látnir greiða  kr. 1.000,- á mánuði  til að mæta kostnaði við leiðbeinendur.
Þá barst félaginu góð gjöf sem var „ Rósin“ söngbók heldri borgara.  Var það Gunnar L. Sigurjónsson sem færði félaginu tvo kassa með þessum söngbókum, annan til sönghópsins og  hinn til formannsins.  Magnús Óskarsson gerði grein fyrir starfsemi ferðanefndar og sagði að öllu hafi verið frestað sumarið 2020 en Símon Traustason sagði frá ferðum sem farnar voru sumarið 2019.  Fyrir hönd íþróttanefndar sagði Herdís Þórðardóttir frá starfseminni, eru um 20 í hvorum hóp, boccia og leikfiminni.  Snæbjörn Guðbjartsson sagði frá starfsemi sönghópsins, en síðasta æfing var 26. febrúar 2020.  Lýsti hann ánægju sinni með lausnina á geymslu söngpallanna, en keypt var yfirbyggð kerra sem greidd var af félaginu.
Stjórn félagsins er óbreytt því ekki höfðu komið nein mótframboð,  nema Ásta Pálína Ragnarsdóttir tók sæti Herdísar Þórðardóttur í íþróttanefnd.  Var stjórninni fagnað með lófataki .
Eftir lokaorð og funarslit voru kaffiveitingar og síðan var tekið í spil.