FRÁ FERÐANEFND FÉLAGS ELDRI BORGARA Í SKAGAFIRÐI

SKUGGA – SVEINN     LEIKHÚSFERÐ 25. MARS 2022                       

Lagt var af stað frá N einum á Sauðárkróki klukkan 15:30; og nú skyldi haldið til samfundar við ,,Skugga – Svein“  í Samkomuhúsinu hjá Leikfélagi Akureyrar. Alls voru fjörutíu og tveir þátttakendur í ferðinni, tveir óku í einkabíl en hinir með rútu á vegum Gísla Rúnars. Veður var leiðinlegt á leiðinni; og áttu rúðuþurrkurnar fullt í fangi með að standa sig. Þegar til Akureyrar kom var farið á veitingastaðinn Rub 23 í Listagilinu, þar sem við snæddum dýrindis grillað lambakjöt og á eftir því súkkulaðiköku með kaffi. Eftir að hafa kýlt vömbina, var haldið inn í Samkomuhúsið til fundar við Sveinka. Þetta var dálítið öðru vísi  útfærsla á leikritinu en maður sá áður. En gaman var að sjá þessa sýningu; og ég held, að allir hafi verið sáttir við þessa langþráðu leikhúsferð.

Þórey Helgadóttir (sign.) ritari

HÚSAVÍKUR – OG ÞEISTAREYKJAFERÐ 14. JÚNÍ 2022

Heldur hafði fækkað í hópferðinni frá því sem pantað var, því að þátttakendur urðu aðeins 43. Covid og fleiri ástæður voru fyrir því.

Lagt var af stað frá N- einum á Krók kl. 9 og frá Varmahlíð kl. 9:30. Guðmundur Sigurbjörnsson ók og rúmt var um okkur í 55 manna bíl. Áð var í smástund á Glerártorgi, en síðan ekið rakleitt til Húsavíkur. Þar fengum við ágætis fiskisúpu á veitingastaðnum Sölku, sem er í gamla kaupfélagshúsinu.

Tryggvi bóndi á Þverá í Reykjahverfi er mjög kunnugur á Þeistareykjaslóðum, en þangað var förinni heitið eftir súpuátið. Fékk ég hann sem leiðsögumann, en hann kom til móts við okkur á Húsavík. Veðrið var gott og við stoppuðum dálitla stund  við gangnamannakofann á Þeistareykjum, en virkjunina gátum við ekki fengið að skoða, þurfti að panta það með viku fyrirvara og við nenntum ekki að bíða eftir því.

Við höfðum rúman tíma þegar við komum aftur til Húsavíkur. Sumir fóru á bæjarrölt, aðrir í Hvalasafnið. En svo var bara slappað af á Gamla- Bauk, setið þar úti í sól og blíðu. Um fimm leytið  héldum við af stað. Fórum nú upp Aðaldal og Reykjadal, yfir Fljótsheiði og Víkurskarð.

Við áttum pantaðan mat á veitingastaðnum Vitanum á Akureyri og höfðum nægan tíma, svo að ég ákvað að við færum Laugalands- og Hrafnagilshringinn, sem mínum gamla sveitunga Birni Björnssyni (Bangsa) fannst nú ekki slæmt. En hann var búinn að segja okkur margt skemmtilegt í ferðinni. Til Akureyrar vorum við komin  laust fyrir klukkan sjö, þar sem kvöldverður beið okkar á Vitanum við Strandgötu.

Eftir að hafa kýlt vömbina var haldið heimleiðis eftir vel heppnaða ferð.

Þórey Jónsdóttir (sign.) ritari