Aðdragandi og stofnun félagsins og starfsemin í 30 ár.

Það var snemma vors árið 1992, nánar tiltekið 4. maí, sem boðað var til almenns borgarafundar á Sauðárkróki.  Efni fundarins var stofnun félags eldri borgara á Sauðárkróki.  Á þeim fundi var kosin undirbúningsnefnd  þar sem Ingvar Gýgjar Jónsson var kosinn formaður ásamt þeim Sæmundi Hermannssyni og Halldóri Þ. Jónssyni.

Stofnfundur félagsins var svo haldinn í Safnahúsinu 29. september 1992.
Ingvar Gýgjar setti fundinn, fundarstjóri kosinn Halldór Þ.  Jónsson og ritari Rögnvaldur Gíslason.  Ingvar Gýgjar greindi frá störfum nefndarinnar.  75 manns höfðu þegar skráð sig sem stofnfélaga.  Þá voru lögð fram og samþykkt lög fyrir félagið í mörgum köflum og ótal liðum.
Áður mun hafa starfað undirbúningsnefnd. Óvíst hverjir voru í henni.

Stjórn félagsins:

Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir:
Sæmundur Hermannsson, formaður.
Sigurlaug Gunnarsdóttir,
Sigmundur Pálsson,
Kári Steinsson,
María Hansen.

Varastjórn:
María Sveinsdóttir,
Þóra Friðjónsdóttir,
Friðrik J. Friðriksson.

Endurskoðendur:
Rögnvaldur Gíslason,
Erla Einarsdóttir.

Nefndir og starfshópar:

Á fundi 13.nóvember 1992 skipaðar: Bygginganefnd, fjáröflunarnefnd, félagsmálanefnd, ferðanefnd og húsnefnd. Árgjald var í byrjun 1000.-kr.
Aðstaða F.E.B.S. var fyrstu 8 árin á Sjúkrahúsinu, í félagsaðstöðunni niðri. Sjúkrahúsið mun hafa séð um veitingar, en félagið fært þeim ýmsa eldhúsmuni í staðinn.
18.febrúar 1999 flyst starfsemi F.E.B.S. í Félagsheimilið Ljósheima og er þar fram að áramótum 2008-2009.  2.febrúar er flutt í ,,Hús frítímans“

LOGO félagsins er hannað af Guðmundi Márussyni

Formenn frá stofnun félagsins:
Sæmundur Hermannsson 1992 – 1996
Fjóla Þorleifsdóttir 1996 – 2000
Guðmundur Márusson 2000 – 2005
Helga Bjarnadóttir 2005 – 2008
Guðmundur Márusson 2008 – 2010
Inga Valdís Tómasdóttir 2010 – 2015
Birgitta Pálsdóttir 2015 – 2019
Helga Sigurbjörnsdóttir 2019 – 2021
Stefán Arnar Steingrímsson 2021 – 2023

Stjórn FEBS 2022-2023:
Formaður: Stefán Arnar Steingrímsson
Varaformaður: Ingunn Ásdís Sigurðardóttir
Ritari: Ásta Pálína Ragnarsdóttir
Gjaldkeri: Steinunn Hjartardóttir
Meðstjórnandi: Ásta Kristín Sigurbjörnsdóttir

Varamenn: Magnús Óskarsson, Björn Björnsson og Stefanía Stefánsdóttir

Eru félagar í FEBS núna í október 2022 um 350 manns.

Sönghópurinn:
Árið 1995 kom hugmynd frá Kára Steinssyni um að stofna ,,Sönghóp eldri borgara“.  Varð hann síðan formlega stofnaður 22. mars 1996 og varð það og er merkur þáttur í starfi eldri borgara.   Varð Kári Steinsson jafnframt fyrsti formaður.
Logo félags eldri borgara, sem hannað var af Guðmundi Márussyni,  var staðfært að Sönghópnum sem eigið lógó.

Formenn sönghópsins frá stofnun:
Kári Steinsson 1996 – 1997
Árni Blöndal 1997 – 2006
Sigurlaug G. Gunnarsdóttir 2006 – 2009
Jóhanna Jónasdóttir 2009 – 2011
Þorbergur Skagfjörð Jósepsson 2011 – 2013
Þorbjörg E. Gísladóttir 2013 – 2016
Snæbjörn Guðbjartsson 2016 – 2022
Ragnheiður Guðmundsdóttir 2022 -2024

Kórstjórn og  stjórnandi 2022-2023:
Formaður kórstjórnar er Ragnheiður Guðmundsdóttir, varaformaður Magnús Sverrisson, gjaldkeri Þórey Helgadóttir og ritari Ásta Pálína Ragnarsdóttir.
Meðstjórnandi er Valgeir Kárason.

Kórstjórnandi er Rögnvaldur Valbergsson.

Núna í október árið 2022 eru skráðir félagar í Sönghópnum um 38 og meðalmæting á æfingar 28-30.

Breytingar á lögum félagsins.

Félagið hét í upphafi Félag eldri borgara á Sauðárkróki. Breytt í Félag eldri borgara í Skagafirði á aðalfundi 23.maí 1993, skammstafað F.E.B.S.  Einnig að kosið skyldi á aðalfundi í stjórn nokkurra nefnda.  Á aðalfundum 17. apríl 1997 og 12. apríl 1999 voru gerðar lagfæringar á lögunum og nefndum fækkað og á aðalfundi 15. apríl 2002 voru felld út tímatakmörk á setu í stjórn.
Þannig að að nú er aðeins kosið í tvær nefndir, Ferðanefnd og Íþróttanefnd.

Á aðalfundi 14.03.2022 voru svo lög félagsins endurskoðuð og ýmsu breytt og lagfært til að mæta tækni nútímans.  Var það frekar orðalag heldur en breyting á lögunum sjálfum. Aðeins var tekið út úr 1. kafla 2. greinar b. lið hvað varðaði byggingu þjónustuíbúða aldraðra í Skagafirði.

Starfsemin:

Dagskrá: Dagskrá hvers starfsárs er ákveðin að hausti. Send er út auglýsing í Sjónhorninu í byrjun sept. hvert ár með dagskrá til áramóta og aftur er auglýst um áramót þar sem dagskrá til vors er kynnt.

Umsjónaraðilarnir með starfseminni á Löngumýri auglýsa sömuleiðis  og Hofsósingar auglýsa sína starfsemi.

Félagsgjald: Er nú í október 2022 kr. 3000.-

Stuðningsaðilar:
Árið 2007 gaf Kaupfélag Skagfirðinga kr. 10.000.000.- milljónir til uppbyggingar á félags og tómstundaaðstöðu fyrir eldri borgara í Skagafirði. 6 milljónum hefur verið varið í hús- og eldhúsbúnað í Hús frítímans. 4 milljónir stóðu þá eftir og hafa verið nýttar til að kaupa ýmsan búnað fyrir félagsstarfsemina.  Einnig hafa Kaupfélag Skagfirðinga, SSNV, Arion banki,  Skagafjörður og Akrahreppur stutt rekstur félagsins fjárhagslega.  Þá hafa félaginu borist góðar gjafir bæði frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum og ber að þakka það.

Þá ber ekki síst að nefna það að Sveitarfélagið Skagafjörður gerði samstarfssamning við Félag eldri borgara í Skagafirði til tveggja ára þann 7. nóvember 2019 sem var svo endurnýjaður 29. september 2021, aftur til tveggja ára.  Með þessum samstarfssamningi veitir Sveitarfélagið FEBS fjárhagsstuðning vegna starfseminnar hér á Sauðárkróki, á Löngumýri og Hofsósi.  Má þar meðal annars nefna að félagið hefur aðgang að Húsi Frítímans a.m.k. 14 klukkutíma á viku. Var þessi stuðningur í formi húsaleigu og fleira fyrir árið 2021 samtals kr. 6.175.000.

Lesið á 30 ára afmæli félagsins í Ljósheimum 17. október 2022.