Forsíða2021-02-08T20:32:08+00:00

Tillögur stjórnar FEBS um lagabreytingar

Hér koma tillögur stjórnar FEBS um breytingu á lögum félagsins fyrir aðalfundinn 14. mars 2022 kl. 13.00.  Þið tvíklikkið á linkinn hér fyrir neðan og þá birtist skjalið með lögum FEBS þar sem tillögur stjórnar um breytingu á lögunum eru skrifaðar með rauðu.  Kynnið ykkur þessar tillögur vel og mætum svo sem flest á aðalfundinum.

Lagabreytingar – tillögur stjórnar

March 2nd, 2022|Categories: Uncategorized|0 Comments

Dagskrá Félags eldri borgara í Skagafirði til vors 2022

Hér má sjá dagskrána okkar til vors 2022.  Einnig hefur þessi dagskrá verið færð inn á flipann  “dagskrá” sem hægt er að finna með því að færa músina yfir “starfið” hér efst á síðunni.

Félag eldri borgara í Skagafirði.
Samkomur eldri borgara til vors 2022
í Húsi frítímans –  hefjast kl. 13.00

Febrúar
7.   mánudagur – Bingó
10. fimmtudagur – Spil
14. mánudagur – Félagsvist
18. fimmtudagur – Spil
21. mánudagur – Bingó
24. fimmtudagur – Spil
28. mánudagur – Félagsvist

Mars
3.   fimmtudagur – Spil
7.   mánudagur- Bingó
10. fimmtudagur – Félagsvist
14. mánudagur – Aðalfundur – Spil
17. fimmtudagur – Spil
21. mánudagur – Bingó
24. fimmtudagur – Spil
28. mánudagur – Félagsvist
31. fimmtudagur – Spil

Apríl
4.  mánudagur – Bingó
7.  fimmtudagur – Spil
11. mánudagur – Félagsvist
21. fimmtudagur – Spil
25. mánudagur – Bingó
28. fimmtudagur – Félagsvist

Annað:

Handavinna og föndur:  Miðvikudaga í Húsi frítímans  kl. 12.00 – 16.00.  Jóna og Helga taka vel á móti ykkur.  Hefst 9. febrúar.

Leikfimi:  Mánudaga og miðvikudaga í Húsi frítímans kl. 10.00 – 11.00.  Guðrún Helga þjálfar.  Hefst 7. febrúar.  Skráið ykkur hjá Ástu  R. í síma 862-6167.

Boccia:  Þriðjudaga og fimmtudaga í Húsi frítímans kl. 10.00 – 12.00

Pílukast:  Þriðjudaga í Húsi frítímans kl. 10.00 – 12.00

Jóga:  Föstudaga í Húsi frítímans kl. 10.00 – 11.00. Sigríður H. Sveinsdóttir stýrir jóga fyrir 60+. Skráið ykkur hjá Ingunni í síma 863-5245.

Spjaldtölvu- og snjallsímanámskeið: Skráning hjá Steinunni í síma 898-6632.

Samvera á Löngumýri:  Helga Bjarnadóttir og Sigríður Garðarsdóttir bjóða til samveru þriðjudagana 8. og 22. febrúar, 8. og 22. mars og 5. og 19. apríl. Byrja að vanda kl. 13.30.

Leshópur:  Miðvikudaga á Bókasafninu kl. 10.30 – 11.30.

Gönguhópur:  Mánudaga og fimmtudaga kl. 11.00.  Mæting við Vallarhúsið á íþróttavellinum.

Íþróttahúsið:  Á fimmtudögum kl. 12.00 – 13.00.  Ringó eða annað eftir áhuga.  Áhugasamir hafi samband við Ástu R. í síma 862-6167.

Kórinn:  Æfingar í Ljósheimum á miðvikudögum kl. 15.00 – 17.00.  Nýir félagar velkomnir.  Upplýsingar veita Krummi í síma 848-8327, Ásta R. í síma 862-6167 og Þórey í síma 895-8078. Hefst 16. febrúar.

Skákæfingar:  Eldri borgarar eru boðnir velkomnir á skákæfingar hjá Skákfélaginu í Safnaðarheimilinu á miðvikudögum kl. 20.00

Útskurður:  Í Árskóla (smíðastofu) þriðjudaga kl. 16.00 – 18.00.  Upplýsingar hjá Ástu R. í síma 862-6167.

Dans:  Steinunn Arnljótsdóttir verður í Ljósheimum á þriðjudögum kl. 20.00 – 21.00 með línudans og svo strax á eftir, kl. 21.00 – 22.00, með gömlu dansana.  Áhugasamir hafi samband við Steinunni í síma 846-9014.

Heimavist FNV:  Hádegishlaðborð virka daga; kr. 1.500

Matur á Hard-wok Cafe: 15% afsláttur af heildarreikningi.  Auka 10% af tilboðum.

Mælifell veitingahús og KK restaurant:  15% afsláttur af matseðli.

Dagdvöl aldraðra:  Dagdvöl í Skagafirði er ætluð öldruðum einstaklingum og er markmið hennar að bjóða upp á þjónustu sem auðveldar fólki að búa sem lengst á eigin heimili, þrátt fyrir hækkandi aldur og skerta færni.  Upplýsingar veitir Stefanía Sif Traustadóttir í síma 453-5909 eða 692-5909.

Minnum á heimasíðuna okkar:  febskagafirdi.is og Facebook síðu félagsins:  Félag eldri borgara í Skagafirði.

Ofangreind dagskrá er háð því að hún standist þær sóttvarnarreglur sem í gildi eru á hverjum tíma.

Munum að við erum öll almannavarnir!!

ATH: Bílastæði eru einnig austan við Hús frítímans – þá er ekið inn á planið sjávarmegin.

February 21st, 2022|Categories: Uncategorized|0 Comments

Borgarfjarðarferð F.E.B.S. 3.- 5. júní 2021.

Tuttugu og einn pantaði í ferðina, en þrír boðuðu forföll, þannig að útkoman varð átján manns. Lagt var af stað klukkan 9:30 þann þriðja júní og var Gísli Rúnar bílstjóri. Glampandi sól var norðan heiða en úr því þungskýjað og skúrir. Eftir smástopp í Staðarskála var stefnan tekin á Hraunsnef, þar sem beið okkar kjúklingasúpa. Eftir að hafa gert henni skil var ekið að Baulu, þar sem Bjarni Guðmundsson f.v. kennari á Hvanneyri kom um borð sem leiðsögumaður. Undir hans leiðsögn var farið um Stafholtstungur, fram Hvítársíðu að Hraunfossum og  Barnafossi. Þaðan niður Hálsasveit og yfir í Reykholtsdal – aðeins komið við í Reykholti, en ekki farið út úr bíl þar. Fórum við svo niður Bæjarsveit og að Hvanneyri, þar sem við skoðuðum Ullarsetrið, Búvélasafnið og kirkjuna. Bjarni sagði okkur sögu hennar, en hún var byggð 1905 eftir að sú gamla fauk. Við skiluðum Bjarna til síns heima eftir frábæran dag. Svo ókum við sem leið liggur að Hótel Laxárbakka í Leirársveit. Fengum við þar herbergjum úthlutað og síðan var kvöldverður klukkan sjö. Fengum við fyrirtaks rjómalagaða aspassúpu og pönnusteikta löngu ásamt nógu af grænmeti með. Alveg fyrirtaks matur. Síðan var setið og spjallað um stund, en flestir gengu snemma til náða.

Föstudagurinn fjórði júní: Veður var mjög blítt – sólarlaust en hlýtt og smávegis rigning. Bjarni leiðsögumaður mættur fyrir allar aldir og lagt af stað á mínútunni. Nú vildi Bjarni byrja á að fara niður á Akranes, þar sem hann sagði okkur frá ýmsu, svo sem böllunum á hótelinu í den. Gengið var út að vitanum.  Við sáum þarna kútter Sigurfara og sitthvað fleira. Eftir Akranesrúntinn var farið sem leið liggur fram hjá Hvalfjarðargöngunum og  hótelinu og veitingastaðnum Laxárbakka og upp í Leirársveit og Svínadal, yfir Ferstikluháls og niður að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd. Þar skoðuðum við Stríðsminjasafnið hans Gauja litla. Mögnuð upplifun það! Því næst komum við að Hótel Glym, þar sem við snæddum afbragðs villisveppasúpu. Að því loknu héldum við inn Hvalfjörð og keyrðum inn í Brynjudal. Síðan var farið yfir í Kjós, þar sem við töfðum góða stund á Kaffi Kjós við Meðalfellsvatn, svo ókum við upp fyrir Miðfell og niður Miðdal, þaðan sem leið liggur að Hvalfjarðargöngum. Komum við að Laxárbakka klukkan fimm, þar sem við kvöddum okkar frábæra leiðsögumann. Klukkan sjö var svo kvöldmatur – dýrindis lambakjöt og meðlæti og frönsk súkkulaðikaka á eftir. Setið var um stund og sungið. Ásta Ragnarsdóttir fékk lánaðan gítar.

Á laugardagsmorguninn var sæmilegasta veður – skýjað en að mestu leyti þurrt.  Við fórum frá Laxárbakka – þeim frábæra gististað klukkan tíu. Ég náði sambandi  við Víðigerði í Víðidal og pantaði kjötsúpu handa okkur, er við kæmum þangað. Við keyrðum Melasveitarhringinn, tókum einn rúnt um Borgarnes, en ókum svo beint í Staðarskála, þar sem tekið var stutt pissustopp. Ásta Ragnarsdóttir tók nú að sér leiðsögn, þar sem við nálguðumst æskuslóðir hennar. Fórum við fram í Miðfjörð að vestan og austur yfir brú hjá Haugi, en aðeins norðan við Bjarg tókum við hægri beygju og ókum yfir í Fitjárdal og ókum norður hann. Komum klukkan rúmlega eitt í Víðigerði, þar sem kjötsúpa hafði breyst í aspassúpu, en hún var ágæt. Ingunn Sigurðardóttir tók að sér leiðsögn það sem eftir var af leiðinni. Komum á Krókinn klukkan rúmlega fimm. Þá var þessari bráðskemmtilegu ferð lokið.

Þórey Helgadóttir

September 17th, 2021|Categories: Uncategorized|0 Comments

Úrdráttur úr fundargerð aðalfundar F.E.B.S. 18. mars 2021.

Aðalfundur FEBS var haldinn í Húsi frítímans þann 18. mars 2021.  Mættir voru 46 félagar.  Stefán A. Steingrímsson, starfandi formaður, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.  Skipaði hann Birgittu Pálsdóttur sem fundarstjóra.  Tók hún við stjórn og minnti fólk á sóttvarnir og lét blað ganga meðal fundargesta til að skrá nafn, kennitölu og símanúmer vegna smitrakningar.   Þá gaf hún Stefáni starfandi formanni orðið sem minntist látinna félaga og las upp nöfn þeirra.    Í minningu Helgu Sigurbjörnsdóttur, formanns,  fór hann nokkrum orðum um æviágrip hennar og þakkaði hennar störf í þágu félagsins.   Þá las Stefán upp skýrslu stjórnar, en vegna covid lá starfsemin að mestu niðri vegna samkomutakmarkana.  Á stjórnarfundi   17. september 2020 var ákveðið að starfið gæti farið að hefjast aftur, boccia og leikfimi fór af stað og var jólafundur ákveðinn 17. desember.  En 21. september voru covid smit aftur að aukast í samfélaginu og reglur hertar.  Svo ákveðið var að bíða. Ósk kom frá fjölskyldu Helgu Sigurbjörnsdóttur að blómagjöf vegna jarðarfarar hennar  yrði greidd í minningarsjóð Sigurlaugar frá Ási.  Gott samstarf var við nýjan yfirmann í Húsi frítímans, Sigríði Ingu Viggósdóttur og þakkað fyrir það.  Hefðbundið starf hófst svo aftur eftir áramót, þann 15. janúar.  Sú nýjung var að boðið var upp á tölvukennslu hjá starfsfólki Húss frítímans og mæltist það vel fyrir.  Helga Bjarnadóttir hélt utanum Löngumýrarstarfsemina og opið hús í Húsi frítímans var bætt við á föstudagsmorgnana.  Þá var haldið námskeið í tréútskurði og voru 10 þátttakendur.  Styrk frá Þróunarsjóði var lítið hægt að nota vegna covid.   Félagar eru nú 293.  Starfandi formaður þakkaði fundarmönnum og starfsfólki Húss frítímans fyrir gott samstarf.  Kristín Björg Helgadóttir, ritari, las fundargerð síðasta aðalfundar og var hún samþykkt.    Steinunn Hjartardóttir, gjaldkeri, gerði grein fyrir reikningum félagsins og bar þá undir fund og voru þeir samþykktir.  Fyrir hönd ferðanefndar sagði Magnús Óskarsson frá öllu sem ekki var gert og hugmyndum af t.d. leiksýningu í vor.  Símon Traustason sagði frá fyrirhugaðri ferð í Borgarfjörðinn snemma sumars og lagði fram könnunarlista um þátttöku.  Ásta Pálína Ragnarsdóttir sagði frá íþróttanefnd, 14-17 mæta að jafnaði í leikfimi og í Boccia mæta að jafnaði 18-20, en þar eru 25 skráðir félagar.  Pílukast er einu sinni í viku og  er lítil þátttaka þar.  Sönghópurinn hefur ekki haft neina starfsemi á þessum vetri og sagði formaðurinn, Snæbjörn Guðbjartsson, að farið yrði af stað af krafti í haust og alltaf vantaði nýja félaga. Ákveðið var að hækka kaffigjaldið úr kr. 300 í kr. 500 og gefur Sveitarfélagið áfram kaffiduftið.    Í önnur mál tók til máls Birgitta Pálsdóttir, ekki sem fundarstjóri heldur sem almennur fundarmaður og þakkar stjórninni fyrir þeirra störf á erfiðum tímum.  Hún leggur til að félagið gefi peninga í söfnun Safnaðarins fyrir nýjum líkbíl.  Hafði Símon Traustason einnig talað fyrir þessum lið í sinni tölu.  Var það samþykkt samhljóða.    Þá var kynnt ný stjórn sem samþykkt var samhljóða.  Formaður:  Stefán Arnar Steingrímsson, varaformaður: Ingunn Á.  Sigurðardóttir, gjaldkeri:  Steinunn Hjartardóttir, ritari: Ásta Pálína Ragnarsdóttir, meðstjórnandi: Guðmundur Gunnarsson, varamenn: Ásta Kristín Sigurbjörnsdóttir, Sigurður Björnsson og Magnús Óskarsson.    Þá var skipað í nefndir félagsins.  Íþróttanefnd:  Ásta Pálína Ragnarsdóttir, Guðmundur Gunnarsson og Gunnhildur Vilhjálmsdóttir.  Ferðanefnd:  Magnús Óskarsson, Þórey Helgadóttir og Símon Traustason.  Til vara Kristín B. Sveinsdóttir.  Skoðunarmenn reikninga:  Elín Sigurðardóttir og Gestur Þorsteinsson.  Til vara Engilráð M. Sigurðardóttir.  Fulltrúar í öldungaráði félags okkar eru:  Stefán Steingrímsson, Örn Þórarinsson og Svala Gísladóttir.  Til vara Ágústa Eiríksdóttir, Helena Svavarsdóttir og Gestur Þorsteinsson.  Sönghópurinn er með sína eigin stjórn.  Þá þakkaði fundarstjóri fyrir góðan fund og nýkjörinn formaður þakkaði fundargestum og vonar að félagið styrkist áfram.   Starfsfólki í Húsi frítímans þakkað fyrir einstaklega góða samvinnu og lipurð og eiga hrós skilið.  Fundi slitið.

September 17th, 2021|Categories: Uncategorized|0 Comments
Go to Top