Forsíða2021-02-08T20:32:08+00:00

Helga Sigurbjörnsdóttir, formaður, lést 01.11.2020.

Helga var mjög virk í félagsmálum og fékk verðskulduð samfélagsverðlaun sveitarstjórnar Skagafjarðar á árinu 2020.

Hún var formaður Félags eldri borgara í Skagafirði, FEBS, er hún lést, en hafði áður verið starfandi í nefndum og sem formaður t.d. ferðanefndar í mörg ár. Helga vann fyrir FEBS af sannri trúmennsku og alltaf tilbúin að bæta á sig störfum fyrir félagið, og fyrir það er af einlægni þakkað. Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Við kveðjum Helgu með virðingu og þökk. Blessuð veri ætíð minning hennar.

Fyrir hönd Félags eldri borgara Skagafirði,

Stefán  Steingrímsson.

December 11th, 2020|Categories: Uncategorized|0 Comments

Helga Sigurbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Skagafirði heiðruð.

Nýlega voru veitt Samfélagsverðlaun Skagafjarðar, en þau eru veitt einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði, sem þykir standa sig afburðavel í að efla skagfirskt samfélag.  Þessi viðurkenning hefur verið veitt 5 sinnum og þá við setningu Sæluviku.

Helga Sigurbjörnsdóttir hlaut þennan heiður í ár, en hún er vel að honum komin.  Auk þess að vera núverandi formaður Félags eldri borgara í Skagafirði, hefur hún setið lengi í stjórn félagsins. Helga hefur verið óþreytandi í störfum sínum í þágu eldri borgara, er alltaf að hvetja aðra í kringum sig og ber hag félagsins fyrir brjósti.

Öll þau verkefni sem Helga hefur tekið að sér, hvort sem það er þjóðbúningasaumur, að stjórna stórri Dægurlagakeppni Kvenfélagsins, eða vinna fyrir samfélagið í heild, hefur hún lagt sig alla fram um að láta hlutina ganga.

Til hamingu Helga, þú áttir þetta  skilið.

October 27th, 2020|Categories: Uncategorized|0 Comments

Aðalfundur F.E.B.S. 10.09.2020

Upphaflega átti aðalfundur félagsins  fyrir starfsárið 2019 – 2020 að vera 19. mars 2020, en vegna Covit var allri starfsemi hætt um mánaðarmótin febrúar – mars.  Var því talið óhætt að boða til aðalfundar 10. september með því að öllum sóttvörnum yrði gætt.
Formaðurinn Helga Sigurbjörnsdóttir var forfölluð vegna veikinda og einnig gátu hvorki gjaldkerinn Steinunn Hjartardóttir og ritarinn Kristín B. Helgadóttir heldur verið viðstaddar og voru varamenn í þeirra stað.  Varaformaðurinn Stefán Steingrímsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna, en mættir voru 39 félagar.  Skipaði hann Engilráð Sigurðardóttur sem fundarstjóra.
Tók hún við stjórn og skipaði Kristínu B. Sveinsdóttur  sem fundarritara í fjarveru Kristínar B. Helgadóttur.   Að því búnu bað hún viðstadda að minnast látinna félaga með virðingu og þökk og las Stefán upp nöfn þeirra. Þá fór Stefán  með skýrslu stjórnar og fór yfir starfsemi ársins.  Þá las Kristín B. Sveinsdóttir fundargerð síðasta aðalfundar í fjarveru Kristínar B. Helgadóttur, ritara og sagði hún jafnframt frá ferð þeirra Kristínar B.  Helgadóttur á landsfund Landssambands eldri borgara sem haldinn var í  Reykjavík 30. júní  2020.  Í fjarveru gjaldkerans Steinunnar Hjartardóttur gerði Ásta Pálína Ragnarsdóttir grein fyrir reikningum ársins 2019.  Sagði hún félaga vera rúmlega 300.  Á síðasta aðalfundi var félagsgjaldið  hækkað úr 2.000,- í 3.000,- og komu sú hækkun ekki inn fyrr en á árinu 2020, eins framlag frá Sveitarfélaginu fyrir árið 2019 sem kom ekki inn fyrr en eftir áramót og var þar af leiðandi töluvert tap á rekstri félagsins sem vonandi réttist af á árinu 2020.  Nýtt er að þeir félagar sem voru í föndrinu voru látnir greiða  kr. 1.000,- á mánuði  til að mæta kostnaði við leiðbeinendur.
Þá barst félaginu góð gjöf sem var „ Rósin“ söngbók heldri borgara.  Var það Gunnar L. Sigurjónsson sem færði félaginu tvo kassa með þessum söngbókum, annan til sönghópsins og  hinn til formannsins.  Magnús Óskarsson gerði grein fyrir starfsemi ferðanefndar og sagði að öllu hafi verið frestað sumarið 2020 en Símon Traustason sagði frá ferðum sem farnar voru sumarið 2019.  Fyrir hönd íþróttanefndar sagði Herdís Þórðardóttir frá starfseminni, eru um 20 í hvorum hóp, boccia og leikfiminni.  Snæbjörn Guðbjartsson sagði frá starfsemi sönghópsins, en síðasta æfing var 26. febrúar 2020.  Lýsti hann ánægju sinni með lausnina á geymslu söngpallanna, en keypt var yfirbyggð kerra sem greidd var af félaginu.
Stjórn félagsins er óbreytt því ekki höfðu komið nein mótframboð,  nema Ásta Pálína Ragnarsdóttir tók sæti Herdísar Þórðardóttur í íþróttanefnd.  Var stjórninni fagnað með lófataki .
Eftir lokaorð og funarslit voru kaffiveitingar og síðan var tekið í spil.

 

October 17th, 2020|Categories: Uncategorized|0 Comments

Landsfundur eldri borgara, L.E.B. 30.06.2020.

Landsfundur eldri borgara, LEB, var haldinn á Hótel Sögu þ. 30.06.2020.

Fundinn sátu 123 fulltrúar.

Frá okkar FEBS sátu fundinn  Kristín Bjarney Sveinsdóttir og Kristín Björg Helgadóttir.

Alþingi felldi þá tillögu að eldri borgarar fylgi launaþróun í landinu og voru það mikil vonbrigði með forustu launasamtaka.

Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu íhugar vantraust og jafnvel úrsögn úr LEB vegna baráttuleysis í launabaráttunni og segja að 220 þúsund útborguð laun sé vansæmd fyrir íslenska þjóð og styrkur til Gráa hersins sé alltof lágur.  Fundurinn samþykkti algjöra samstöðu með Gráa hernum og baráttu félagsins og málsókn hans gagnvart ríkinu.

Grái herinn berst fyrir mannsæmandi kjörum og virðingu allra og berst á móti skerðingu lífeyris og heimilisuppbótar.

Reykjavíkurdeildin segir að Framkvæmdmasjóður aldraðra verði að berjast fyrir hækkun á lágum launum EB.  Það þarf að líta á EB sem baráttuhóp.  Fram kom   að 45.000 eldri borgarar eru í landinu og 28.000 þeirra eru í félögum.  Samstaða þessa hóps er mjög mikilvæg.

Það þarf að opna umræðu um ofbeldi gagnvart öldruðum í þjóðfélaginu, bæði líkamlegu og fjárhagslegu.  Rætt var um að aldraðir fái réttargæslumann.

Fyrirlestrar í lokin voru frá Janusi, „heilsugúru“, þeir gerðu mikla lukku enda frábærar styrktaræfingar og hreyfiæfingar, lyfta og ganga !!!

„Þríeykinu“ þakkað fyrir að hugsa vel um aldraða og klappað fyrir þeim.

Í september er fyrirhuguð ráðstefna um einmanaleika og félagslega einangrun aldraðra, einnig baráttufundur með sveitarfélögum.

Kristín Björg Helgadóttir

October 11th, 2020|Categories: Uncategorized|0 Comments

Félagsstarf eldri borgara í maí.

Nú þegar kórónufaraldurinn er að syngja sitt síðasta (vonandi) ætlum við að bjóða upp á ,,hitting“ í bingó, spjalli, kaffi og með því mánudagana 11., 18. og 25. maí í Húsi frítímans. Vegna tilmæla um að halda tvo metra milli einstaklinga gengur ekki upp að bjóða uppá brids né félagsvist. Föndurfólk getur sótt sína muni 11. maí. Minnum á göngu á íþróttavellinum alla mánudaga og fimmtudaga kl. 9:00 og 13:00 með kaffisopa og spjalli í Vallarskúrnum eftir gönguna. Sjáumst sem flest!

May 7th, 2020|Categories: Uncategorized|0 Comments
Go to Top